Kirche Jesu Christi der Heiligen der Letzten Tage

Upphaf kirkjunnar á Íslandi

Saga kirkjunnar á Íslandi nær aftur til ársins 1851.  Á þeim tíma voru tveir Íslendingar, Þórarinn Hafliðason og Guðmundur Guðmundsson, við nám í Kaupmannahöfn, Danmörku.  Þar hittu þeir tvo síðari daga heilaga trúboða frá Ameríku.  Þeir kynntu sér kenningar þeirra og eftir miklar bænir og nám sannfærðust þeir um að boðskapur trúboðanna væri sannur -  að Kirkja Jesú Krists hefði vissulega verið endurreist á jörðu með öllum fyrri sannleika og krafti.  Glaðir þáðu þeir skírn og sneru heim til Íslands til að útbreiða gleðitíðindin sem þeir höfðu fundið.

Þeir  hófu trúboðsstarf sitt í Vestmannaeyjum, og þó að þeir finndu marga sem meðtóku boðskapinn með sömu gleði og þeir, var mikið um ofsóknir og andspyrnu gegn starfi þeirra.  Lög voru sett sem bönnuðu skírn.

Stuttu eftir að þeir hófu trúboðsstarfið drukknaði Þórarinn Hafliðason.  Guðmundur Guðmundsson hélt starfinu áfram einn næstu tvö árin.  Honum tókst að snúa fjölda manns til trúar, en gat ekki skírt þá eða staðfest sem meðlimi kirkjunnar, þar eð hann hafði ekki prestdæmisvald til að framkvæma þær helgiathafnir.

Í apríl 1853 var öldungur John P. Lorentzen sendur til Íslands frá Danmörku.  Strax eftir komu hans voru tuttugu manns skírðir.  Öldungur Lorentzen vígði Guðmund Guðmundsson, Loft Jónsson og Magnús Bjarnason í embætti öldungs.  Hann stofnaði einnig grein kirkjunnar 19. júní 1853, og var Guðmundur forseti greinarinnar og hinir tveir ráðgjafar hans.

Á árunum 1853 til 1855 héldu hinir heilögu í Vestmannaeyjum samkomur, en fyrir lokuðum dyrum.  Aðeins smáhópur manna sótti þessar einkasamkomur og létu yfirvöld þær að mestu afskiptalausar.

Árið 1855 fóru nokkrir kirkjumeðlimir frá Íslandi til Bandaríkjanna.  Fljótlega fylgdu fleiri á eftir.  Þessir fyrstu útflytjendur settust að í Spanish Fork, smábæ í mið-Utah.  Nokkrir þeirra komu síðar aftur til Íslands sem trúboðar kirkjunnar.  Frá 1855 og til aldamóta fluttu um 150 fjölskyldur til Utah frá Íslandi.

Í samræmi við fyrirmæli æðsta forsætisráðsins var trúboðsstarfinu hætt á Íslandi 8. júlí, 1914 og Einar Eiríksson, sem þá var trúboði hér, leystur frá starfi þann dag.  Bækur og annað sem tilheyrði íslenska trúboðinu var sent til skandinavísku trúboðsskrifstofunnar í Kaupmannahöfn.

Árið 1975 fékk Byron T. Gíslason og fjölskylda hans í Spanish Fork köllun um að fara til Íslands og hefja trúboðsstarf þar.  Þau fundu aðeins einn íslenskan meðlim við komu sína til landsins.  Þá þegar var grein kirkjunnar starfrækt meðal amerísku hermannanna á Nato herstöðinni í Keflavík.  Meðlimirnir þar veittu trúboðunum á Íslandi mikla og margvíslega hjálp, og Íslendingarnir sem kynntu sér kirkjuna sóttu gjarnan samkomur í Keflavík.  Hinn 8. ágúst 1976 var fyrsta íslenska greinin stofnuð í Reykjavík.

Í september 1977 var Ísland formlega vígt fyrir predikun fagnaðarerindisins af öldungi Joseph B. Wirthlin.  Árið 1981 var Mormónsbók gefin út á íslensku og 1982 Kenning og sáttmálar og hin dýrmæta perla.