Kirche Jesu Christi der Heiligen der Letzten Tage
Boðskapur frá leiðtogum kirkjunnar - 25.11.2014

 

Staðfesta

Öldungur Kent F. Richards

Svæðisforsætisráðið er með undraverða sýn á vöxt kirkjunnar í Evrópu.  Eins og því hefur verið lýst í árlegu áætluninni, þá eru allir möguleikar á því að hægt sé að tvöfalda fjölda kirkjuþegna sem mæta á sakramentissamkomur fyrir árið 2019.  Þetta er sýn trúar, vonar, kærleika og mikillar vinnu.  Stundum hugsum við út frá háum fjöldatölum og stórum hópum fólks sem tilbiður saman.  Það er dásamlegt þegar það gerist.  Við styrkjum og þjónum hvert öðru.  Kannski er það sá umsnúningur sem fer fram í hjarta hvers einstaklings sem er mikilvægari og krafturinn innan fjölskyldunnar til að vernda, styrkja og bókstaflega frelsa hvern og einn.

Á þessu undraverða ári sem ég hef þjónað hér í Evrópu hef ég séð og skynjað kraft anda Drottins seilast inn í hjörtu og heimili kirkjuþegna í mörgum löndum.  Ég hef sjálfur skynjað elsku hans til hverrar persónu.  Stundum finnst mér að meira gott gerist í persónulegri heimsókn með einstaklingi sem berst við erfiðleika en allt það sem talað er um á aðalfundi stikuráðstefnu.  Að sjálfsögðu eru fundir mikilvægir því að hver og einn getur fundið fyrir áhrifum og stuðningi andans og andinn nær að gera skilaboðin persónuleg.

Kannski er stærsta áskorunin til hverrar manneskju að halda áfram að vera trúfastur.  Ég hef séð marga sem hafa tekið þá ákvörðun að taka sér „pásu“ frá því að vera virkur.  Jafnvel þegar þeir koma tilbaka þá eiga þeir erfitt með að ná upp því sem þeir hefðu annars lært, upplifað og áorkað ef þeir hefðu haldið starfinu áfram.  Spámaðurinn Alma notaði sterk orð er hann talaði um hinn trúfasta son sinn, Shiblon: „Staðfastur,“ „trúr,“ „haldir áfram,“  „stendur stöðugur allt til enda.“1   Það er mikil hamingja og góðvild í þessum orðum og merkingu þeirra.  Grundvallar markmiðið með jarðneskri ferð okkar er að meðtaka helgiathafnir musterisins með þeim sáttmálum sem þeim fylgja og halda síðan þessa sáttmála inn í eilífðina.  Þeir eru sannarlega eilífir sáttmálar sem gerðir eru við sjálfan föðurinn.  Þessar athafnir og þessir sáttmálar eru lyklarnir að eilífri hamingju okkar – og varpa skugga á allar áskoranir okkar og, að því er virðist, óyfirstíganlegu vandamálin sem sækja að okkur.

Frelsarinn Jesús Kristur „leiddi oss út“ frá okkar ,Egyptalandi‘ – okkar vandamálum, syndum og ótta - „til að fara með oss hingað“ til friðar og gleði og varanlegrar hamingju og vonar.2  Loforð hans eru raunveruleg. Þau eru ávallt þau sömu. Þau eru persónuleg.  Þau bregðast aldrei.  Hann stendur með opin faðminn að eilífu – svo að við getum gert sáttmála í hjörtum okkar og lífi um að taka á okkur nafn hans, halda boðorð hans og þjóna öðrum.

Fyrir okkur flest þá virðist það vera erfiðast að gefa tilbaka af dýrmætum auði okkar – bæði tíma og eigum.  Kannski er það þess vegna að Drottinn innleiddi tíund og föstufórnir sem mælikvarða fyrir sáttmálsgerð og trúfestu.  Með boðorðum sínum lofar hann okkur, hins vegar, dásamlegum blessunum og fullvissu sem skiptir talsvert meira máli en einhverjir erfiðleikar.  Mikilvægast er, að trú okkar er styrkari. Við erum hamingjusamari.  Það er raunveruleg fullvissa í því að hann þekkir okkur og að hann lætur sig þetta varða.

„Þangað skuluð þér færa …tíundir yðar, og…sjálfviljafórnir…  Og þar skuluð þér halda fórnarmáltíð frammi fyrir Drottni, Guði yðar, og gleðja yður ásamt fjölskyldum yðar… yfir því sem Drottinn, Guð þinn hefir blessað þig með.“   „…því að Drottinn, Guð yðar reynir yður, til þess að vita, hvort þér elskið Drottin, Guð yðar af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar.  Drottni, Guði yðar, skuluð þér fylgja og hann skuluð þér óttast, og skipanir hans skuluð þér varðveita, og raustu hans skulu þér hlýða, og hann skuluð þér dýrka og við hann skuluð þér halda yður fast.“   Jafnvel þó að þessi orð hafi verið töluð af spámönnum fyrir þúsundum árum síðan þá eiga þau enn við í dag og eru sönn.  Hann þarf hjörtu okkar og sáttmála okkar – svo að hann geti blessað okkur takmarkalaust.

1  Sjá Alma 38:2

2  Sjá 5 Mós 6:23