Kirche Jesu Christi der Heiligen der Letzten Tage
Fréttir - 05.05.2015

 

Fjölskyldukvöld iðkuð í 100 ár meðal mormóna

Fjölskylda að leik.

Árið 1957, þegar Frank Santiago, sem nú býr í Provo, Utah, var í bækistöðvum bandaríska flughersins í útjaðri Alaska, lærði hann kenningar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og ákvað að láta skírast. Frank fannst mjög mikilvægt hve áherslan var mikil á fjölskylduna og hann einsetti sér að tileinka sér kenninguna þar að lútandi í þeirri fjölskyldu sem hann ætti síðar eftir að stofna til.

Eftir að herskyldu Franks lauk, fór hann frá uppeldisborg sinni, New York, í Brigham Young háskólann í Provo, Utah, giftist Ellu Castagno frá Erda, Utah, og eignaðist með henni fimm drengi og síðar tvær stúlkur. „Þessi fjölskylduábyrgð var mér afar mikilvæg,“ sagði Frank. „Ég vildi að börnin vissu að fagnaðarerindið væri það mikilvægasta í lífi mínu og að ég gerði allt sem gæti hjálpað þeim að þróa persónulega trú á Guð.“

Santiago-fjölskyldan og milljónir annarra kirkjumeðlima helga sig álíka hlutum, taka frá tíma og gera ráðstafanir til að tileinka sér hina 100 ára leiðsögn um að hafa reglubundin fjölskyldukvöld. Vikulegir samfundir, sem fjölskyldur eru nú hvattar til að hafa á mánudagskvöldum, eru hafðir hvarvetna um heim í kirkjunni og á rætur að rekja til leiðsagnar kirkjuleiðtoga fyrir einni öld síðan.

Á þeim tíma er samfélagið var hæggengara og margir Bandaríkjamenn bjuggu í strjábýli, hvatti Joseph F. Smith forseti (1838-1918) kirkjumeðlimi í apríl 1915, til að „innleiða fjölskyldukvöld hvarvetna í kirkjunni, þar sem feður og mæður kæmu saman með börnum sínum á heimilinu og kenndu þeim orð Drottins.“
Eftir það hvöttu kirkjuleiðtogar til þessarar iðju, en það var þó ekki fyrr en 1965, 50 árum síðar, er meðlimafjöldi kirkjunnar hafði vaxið verulega um heim allan, að David O. McKay forseti (1873-1970), hvatti foreldra til að gera það að fastri reglu að hafa eitt kvöld í viku sem fjölskyldukvöld og lét gera kennslubækling til að efla þessa iðju. Árið 1970 tilnefndi Joseph Fielding Smith forseti (1876–1972) mánudagskvöld til vikulegra fjölskyldusamfunda og bauð að ekkert annað kirkjustarf skildi haft á þessum tíma.

Jafnhliða þessari auknu áherslu á fjölskyldukvöldin, þá lofaði McKay forseti að „miklar blessanir“ yrðu þeirra sem framfylgdu þessari ábyrgð.  Kennsla á fjölskyldukvöldum hefur sameinað fjölskyldumeðlimi, gert þá nánari hver öðrum og stuðlað að mikilli friðsæld og samhljóm á mörgum heimilum.
Núverandi forseti kirkjunnar Thomas S. Monson sagði: „Við höfum ekki efni á að vanrækja þann innblásna þátt. Hann getur fært öllum í fjölskyldunni þann andlega þroska sem hjálpar þeim að standast freistingarnar sem alls staðar eru. Þær lexíur sem lærast heima eru þær sem vara lengst.“
Aaron Sherinian og eiginkona hans, Emily, frá Arlington, Virginíu, eru meðal þeirra kirkjumeðlima sem fylgt hafa þessari spámannlegu leiðsögn.
„Fjölskyldukvöldin snúast algjörlega um hið klikkaða fólk sem við deilum lífi okkar með – fjölskyldu okkar,“ sagði Aaron.

„Fjölskyldukvöld er hefð sem við höfum, ásamt milljónum annarra meðlima kirkjunnar hvarvetna um heim,“ bætti Emily við. „Þetta snýst um að taka frá tíma til að hafa það sem mikilvægast er – fjölskyldu, trú, þjónustu og vináttu – í fyrirrúmi.“

Stephanie Santiago, tengdadóttir Franks og Ellu í Orem, Utah, minnist mikilvægrar lexíu sem henni lærðist á fjölskyldukvöldum á æskuárum sínum.
„Ég ólst upp í ellefu barna fjölskyldu frá Idaho,“ sagði Stephanie. „Faðir minn var stöðugt í leiðtogastöðum í kirkjunni og ég man eftir honum fara að heiman dag eftir dag í jakkafötunum sínum – nema á mánudagskvöldum. Hann fullvissaði okkur öll um að mánudagskvöldin væru okkar sérstaki samverutími og að þá gæti hann verið með okkur, þrátt fyrir hinar miklu annir sem fylgdu ábyrgð hans í kirkju og vinnu. Nú sé ég að eiginmaður minn, Todd, metur mikils fjölskyldutíma okkar á sama hátt og feður okkar gerðu. Það skiptir miklu máli.“

Að þroskast saman í fagnaðarerindinu er megin viðfangsefni fjölskyldunnar – sem felst í námi og athöfnum hvarvetna í kirkjunni. Næstum allir virkir meðlimir kirkjunnar muna eftir mikilvægri fjölskyldukennslu á fjölskyldukvöldi, hvort heldur sem barn, foreldri eða afi og amma. Sumum finnst þeir hafa styrkst að trú á þessum vikulegu kvöldum og öðrum finnst þeir hafa vaxið að sjálfstrausti með því að skipuleggja og taka þátt í athöfnum á fjölskyldukvöldum.

Tímalína fjölskyldukvölds
Eftirfarandi skrá sýnir dagsetningar sem tengjast fjölskyldukvöldi.

27. apríl 1915
Æðsta forsætisráðið (Joseph F. Smith, Anthon H. Lund og Charles W. Penrose) bjóða að höfð séu  „fjölskyldukvöld.“
Janúar 1965
David O. McKay forseti leggur aukna áherslu á fjölskyldukvöld; bæklingur um fjölskyldukvöld gefinn út. Leiðsögn gefin einstaklingum sem eru að heiman um framvindu fjölskyldukvölda, þ.m.t. nemendum eða öðrum einhleypum sem koma saman í hópum.
1970
Mánudagskvöldið helgað sem fjölskyldukvöld hvarvetna í kirkjunni; engir aðrir fundir eða kirkjustarf yrðu höfð á þessu kvöldi.
1985
Sérstök kennslubók um fjölskyldukvöld gefin kynnt og er enn í útgáfu, eftir að bæklingur um fjölskyldukvöld hafði verið gefinn út í 20 ár.
1987
Myndband til stuðnings fjölskyldukvöldi með 19 myndbrotum framleitt og sett í dreifingu.